Leita í fréttum mbl.is

Eru jafnréttismálin gleymd og grafin?

Ég hef tekið eftir því í blöðum og bloggum að fólk kvartar yfir því að ekki sé talað um jafnréttismál í kosningabaráttunni og það er líkast til rétt að lítið hafi farið fyrir jafnréttis- og kvenfrelsismálunum á allra síðustu dögum.

Ég held að þegar ójöfnuður hefur aukist jafn mikið og raun ber vitni í okkar samfélagi verði hann svo hrópandi að athyglin hlýtur að beinast að honum. Við viljum ekki þá miklu stéttaskiptingu sem orðin er í samfélaginu og viljum leita leiða til að auka velferðina. Velferðarmálin hljóta því að fá mikið pláss í kosningabaráttunni. Þegar við erum farin að þurfa að horfa upp á að börn eru með skemmdar tennur vegna fátæktar, gamalt fólk bíður hundruðum saman eftir hjúkrunarrýmum, þarf að dvelja á dvalarheimilum fjarri sinni heimabyggð og sínum ættingjum, geðveik börn fá ekki þá meðferð sem þau þurfa, unglingar hafa ekki ráð á því að sækja nám í framhaldsskóla, o.s.frv., o.s.frv., þá er okkur einfaldlega nóg boðið.

Við þurfum að auka velferð og draga úr og helst útrýma stéttaskiptingunni sem hefur aukist svo brjálæðislega á undanförnum árum að djúp og breið gjá skilur að hina efnuðu og þá efnaminni.

Það er mikið talað um skattamálin vegna þess að skattar hafa hækkað á láglaunafólki og lækkað á hálaunafólki og fjármagnseigendum. Það þarf að hækka skattleysismörkin vegna þess að það kemur hinum tekjulægri til góða.

Jafnréttismálin eru þó ekki gleymd. Ingibjörg Sólrún talaðu um það í ræðu sinni á Landsfundi Samfylkingarinnar að útrýma þurfi óútskýrðum launamun kynjanna og hún talaði líka um það að hækka þurfi laun kvenna í hefðbundnum kvennastéttum hjá ríkinu. Þegar hún var borgarstjóri minnkaði launamunur kynjanna hjá borginni og fleiri konur voru ráðnar í stjórnunarstöður. Hún talaði líka um að afnema þurfi launaleynd en allt bendir til þess að launaleynd sé einn af þeim þáttum sem halda launum kvenna niðri.

Ingibjörg Sólrún er femínisti og hún  hefur barist fyrir bættum hag kvenna síðustu 30 árin eða svo. Hún mun ekki hætta því, hún mun halda því áfram.

Það er því mikilvægt fyrir konur að Ingibjörg Sólrún verði leiðandi í næstu ríkisstjórn og það er ekki nema vika í það að við getum skrifað nýjan kafla í Íslandssöguna með því að tryggja það að hún verði næsti forsætisráðherra Íslands, fyrst kvenna í því embætti.


Mál málanna

Ellý er náttúrlega að skrifa um mál málanna frá örófi alda til ókomins tíma sem eru samskipti kynjanna. Sérstaklega þau nánustu.

Engin furða að fólk vilji lesa um þau.

Konum finnst líkast til skemmtilegt að lesa þetta vegna þess að þetta eru sögur af vinkonuspjalli sem flestar konur kannast við...

Kannski finnst karlmönnum forvitnilegt að kynna sér hvernig konur hugsa... sérstaklega um þá!

Ef til vill eiga þessi skrif eftir að auka skilning kynja á milli, bæta þar með samskipti þeirra og draga úr hvers kyns sambandsvandamálum!

Sögur Ellýjar minna á sögurnar af Carrie og vinkonum hennar í New York og reyndar minna þær á pistla sem nokkrar erlendar blaðakonur hafa skrifað í  blöð og hafa síðan ratað á bók.

Kannski er það einstakt að Ellý er að skrifa sínar sögur á netið.

Áfram Ellý!


mbl.is Ellý segist hissa á hvað bloggið hennar er vinsælt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður byr fyrir velferðarmálin

Góðar fréttir. Nú blæs byrlega fyrir Samfylkinguna sem hefur komið sínum málefnum vel til skila að undanförnu. Við Íslendingar erum jafnaðarmenn að hjartalagi, ég er alveg viss um það. Við gerum okkur grein fyrir því að það þarf heilt þorp til að ala upp eitt barn og viljum að búið sé vel að öllum börnum, þótt þau búi ekki í sama húsi og við. Við viljum ekki að sum börn fái ekki tannlæknaþjónustu vegna fátæktar.

Við viljum ekki að börn sem þjást af geðsjúkdómum þurfi að bíða von úr viti eftir því að fá læknismeðferð og heldur ekki að börn með þroskafrávik þurfi að bíða mánuðum og árum saman eftir greiningu og meðferð.

Við viljum búa eldri borgurum gott ævikvöld og útrýma biðlistum eftir hjúkrunarrýmum.

Við viljum jafnrétti og aukna velferð.


mbl.is Samfylkingin aftur fram úr VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samræmda vitleysan

Jæja, þá er fyrsta prófið búið, guði sé lof. Ég er sem sagt á kafi í samræmdu prófunum og við mæðginin erum búin að vera að læra íslensku hverja einustu lausa stund í marga daga. Vorum líka orðin nokkuð góð í orðflokkagreiningu þegar við hættum kl. 10 í gærkvöld og vitum nú alveg hver munurinn er á andlagi og sagnfyllingu!

Annars er ég á móti svona prófum sem leggja alla áherslu á bóklegar greinar og beina öllum í sama farveg. Hvers vegna er ekki hægt að velja um að taka samræmd próf í myndlist, textíl og tæknimennt jafnt og í bóklegu greinunum, fyrst verið er að hafa samræmd próf á annað borð? Og miklu frekar: hvers vegna ekki að leggja samræmdu prófin niður og finna aðrar leiðir til að meta stöðu nemenda út frá mismunandi hæfileikum þeirra og getu?

Það er ekkert annað í boði en samræmd próf í bóklegum greinum og því verða allir að leika sama leikinn með þeim afleiðingum að margir halda að það sé miklu merkilegra að velja bókleg svið í framhaldsskólunum heldur en þau verklegu. Þó bjóða sumir framhaldsskólar upp á mjög spennandi námsleiðir í list- og verkgreinum.

Síðan er talað um það á hátíðis- og tyllidögum að auka þurfi áhuga á verklegu námi.

Annað sem fylgir þessum blessuðu prófum er ægilegt stress yfir því í hvaða skólum börnin lenda. Þau geta ekki lengur sótt þá skóla sem eru næstir heimilum þeirra því skólarnir velja nemendurna inn eftir einkunnum. Og ef þau komast ekki inn í skólann sem þau setja í fyrsta sæti er ekki víst að þau komist í þann sem þau settu í annað sæti því sá tekur bara þá nemendur sem velja hann í fyrsta sæti.

Þetta er orðin einhver hringavitleysa sem ég botna ekki alveg í og skil ekki að sé nauðsynleg.

 


Gaman, gaman...

Frábært að fá götuleikhús á Listahátíð, mér finnst alltaf skemmtilegast þegar hátíðin kemur til fólksins á götunni og eins og blandar sér inn í hvunndagslífið. Mér er enn í fersku minni stemningin í bænum þegar götuleikhús frá Spáni kom hingað á Listahátíð í kringum 1980. Ég hlakka til að fara með syni mínum í bæinn þegar þetta leikhús kemur, þetta er sannkölluð fjölskylduskemmtun.

Svo lífgar þetta náttúrlega enn frekar upp á kosningahelgina...

Vonandi verður gott veður!


mbl.is Risessan arkar um Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankinn gefur tóninn

Já, það voru svo sannarlega góðar fréttir sem vinnandi fólk í þessu landi fékk í gær, 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. 800 milljónir í starfslokasamning fyrir einn félagann í hópi launþega landsins. Þetta hlýtur að gefa tóninn fyrir næstu kjarasamninga!

 


mbl.is Glitnir kaupir bréf af Bjarna á yfirverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ójöfnuður og leynimakk

Jafnrétti er stórt og mikið hugtak sem nær til allra sviða mannlífsins. Öll börn og unglingar eiga rétt á námi við sitt hæfi. Jafnrétti til náms er bundið í lögum en samt fáum við fréttir af því að fólk þurfi að flýja land vegna þess að sjónskert börn fái ekki nám við sitt hæfi. Og við höfum líka heyrt fréttir af því að Hjálparstofnun kirkjunnar styðji nokkra unglinga til náms í framhaldsskólum sem annars hefðu þurft frá að hverfa vegna fjárhagsörðugleika. Það fylgdi sögunni að þörfin fyrir slíkan stuðning sé miklu meiri en sú stofnun getur annað.

Kynbundinn launamunur er enn 15,7% og hefur ekki breyst síðustu 12 árin. Þetta er sá munur sem er á launum kynjanna þegar búið er að taka tillit til m.a. mismunandi vinnutíma og ólíkra starfa karla og kvenna. Konur fá sem sagt aðeins rúm 84% af launum karla. Það sem vantar uppá full laun fyrir vinnuna eru konur látnar gefa samfélaginu.

Kynbundinn launamunur líðst í skjóli gamalla, úreltra og óréttlátra viðhorfa sem enginn vill kannast við opinberlega. Hann þrífst því best í fyrirtækjum og stofnunum sem fyrirskipa launaleynd. Þar sem starfsfólkið má ekki segja hvert öðru frá því hvað það hefur í laun. Sums staðar er það brottrekstrarsök að segja nokkrum manni frá því hver launin eru.

Kúgunartækin eru margvísleg. Ójöfnuður, misrétti og leynimakk eru öflugust þeirra. Það á ekki að líðast í ríku samfélagi eins og okkar að ójöfnuðurinn sé svo mikill að sumir unglingar þurfi að hverfa frá námi í framhaldsskóla vegna fjárhagsörðugleika.

         Það á heldur ekki að líðast að konur fái lægri laun vegna þess eins að þær eru konur. Það er allra hagur að kynbundinn launamunur verði úr sögunni því hærri laun kvenna munu auka ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu.

 


Enn er hoggið þar sem síst skyldi

Iðjuþjálfun geðdeildar Landspítalans verður lokað á morgun. Þar með verður að mestu hætt að veita geðsjúkum endurhæfingu, sem hefur verið þeim nauðsynlegur undirbúningur til að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Þarna finnst mér hoggið þar sem síst skyldi. Og raunar afar óskynsamlegt að reyna ekki að hjálpa fólki að fóta sig þegar það hefur þurft að takast á við jafn erfiða sjúkdóma og ýmsar geðraskanir eru.

Ástæða lokunarinnar er sú að ekki fæst starfsfólk þar sem það er á lægri launum á geðdeild Landspítalans en tíðkast annars staðar í ríkiskerfinu, fyrir sams konar vinnu.

Þarna er svo sannarlega sett stopp á fólk sem að öðrum kosti hefði átt möguleika á því að halda áfram og fara svo að takast á við lífið eins og allir aðrir.

Þetta er enn eitt bakslagið í heilbrigðiskerfinu.  

 


Stórfrétt í Fréttablaðinu!

Rauðhærðar konur ætla að stofna Samtök rauðhærðra kvenna.

Dóttir mín var rauðhærð.

Ein allrabesta vinkona mín er rauðhærð.

Fjögur af átta systkinum móður minnar eru rauðhærð.

Málið er mér skylt.

Áfram rauðhærðar konur!

 


Burt með biðlistastjórnina

Loksins koma raunhæfar tillögur um úrbætur strax!

Börn geta ekki beðið, hvort sem um geðraskanir eða þroskafrávik er að ræða. Vandi þeirra vex með hverjum degi sem líður án úrlausnar.

Aldraðir geta heldur ekki beðið. Þeir eiga skilið að fá að eyða ævikvöldinu við bestu hugsanleg skilyrði. Það er ótrúlegt að í allsnægta þjóðfélaginu sem við búum í séu 400 aldraðir á biðlista eftir hjúkrunarrými. Og fjöldi fólks í þvingaðri samvist. Fólk á að hafa frelsi til að búa eitt eða með þeim sem það kýs sjálft að búa með.

Peningahyggjan hefur verið alls ráðandi í okkar samfélagi síðustu árin, nú er nóg komið af henni.

Við viljum aukna velferð.

 


mbl.is Samfylkingin vill tryggja börnum og öldruðum á biðlistum örugga þjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sonja B. Jónsdóttir
Sonja B. Jónsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband