Leita í fréttum mbl.is

Hörmuleg frétt

Þetta er hörmuleg frétt. Ég hefði haldið að norskir karlmenn, og reyndar karlmenn yfirleitt, væru komnir lengra en þetta. Sérstaklega í löndum þar sem jafnréttisbaráttan hefur staðið lengi. Mér finnast þetta í rauninni ótrúlegar niðurstöður.
mbl.is Konunum sjálfum að kenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Persónuleg eða pólitísk?

 Það er ekki lítið mál að blogga - ég er búin að komast að því! Átti frí í vinnunni á föstudaginn var og ákvað, full bjartsýni, að byrja að blogga. Skrifaði þá nokkrar færslur eins og sumir hafa komist að. En svo fór nú með þetta eins og dagbókarskrifin í gamla daga, alltaf eitthvað svo mikilvægt að gera í lífinu að skýrslugerðin varð að bíða. Svo áttu dagbókarskrifin það til að verða svo tilfinningaþrungin og opinská að ég fann mig knúna til að rífa bókina í tætlur og kveikja í henni á nokkurra vikna fresti. Og það er einmitt ein af spurningunum sem bloggarar hljóta að spyrja sig: Hversu persónulegt á bloggið að vera? Ég sé að sumir skrifa bara um pólitík og fréttir, aðrir blanda skondnum smásögum úr hversdagslífinu í bloggið sitt á meðan enn aðrir eru eins persónulegir og þeim sýnist.
 
Ákveði ég að verða persónuleg get ég sagt frá því að verkefni og atburðir helgarinnar voru allt frá því að vera erfið og sár yfir í að vera svo ánægjuleg að ég hef ekki skemmt mér betur í langan tíma. Hápunktur gleðinnar var fimmtugsafmæli rauðhærðu söngkonunnar sem var allra skemmtilegasta veisla sem ég hef verið í lengi og örugglega fimmtugsafmæli ársins! Það voru sko engin 50-centa skemmtiatriði þar, enda eintómir snillingar saman komnir á heimili söngkonunnar góðu.
 
Þegar ég var að fara yfir það í huganum hvernig helgin mín hefði verið flaug um huga mér ljóðlínan "Dýpsta sæla og sorgin þunga" og það varð til þess að ég fletti upp á þessu dásamlega ljóði og get ekki stillt mig um að birta það hér í heild:
 
Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra máli ei talar tunga.
Tárin eru beggja orð.
 
Þetta dásamlega ljóð er eftir eina af okkar frábæru skáldkonum, Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum (f.1857 - d.1933).
 
 
Ákveði ég hins vegar að vera pólitísk standa kosningarnar í Frakklandi upp úr - og nú vona ég bara að Segolene drífi fram úr hinum frambjóðandanum - hvað´ann-nú-heitir-aftur- og verði forseti Frakklands 6. maí, Ingibjörg Sólrún forsætisráðherra Íslands viku síðar og Hillary svo forseti Bandaríkjanna.
 
Í gærkvöld urðu svo þau frábæru tíðindi að stofnað var Félag ungra jafnaðarmanna á Seltjarnarnesi.  Ég fór að sjálfsögðu á stofnfundinn og fylltist bjartsýni á framtíðina þegar ég sá þetta unga og áhugasama fólk sem ætlar að halda á lofti merkjum jafnaðarstefnunnar og berjast fyrir aukinni velferð og jöfnuði í samfélagi okkar. 
 


Ár hinna sterku kvenna

Það ætla ég svo sannarlega að vona að Torfi reynist sannspár og Segolene verði forseti Frakklands 6. maí. Svo vona ég líka að Ingibjörg Sólrún verði forsætisráðherra Íslands viku síðar og að Hillary Clinton verði forseti Bandaríkjanna áður en árið er úti. Þetta eru allt raunhæfir möguleikar, enda hefur verið talað um árið 2007 sem „ár hinna sterku kvenna“.

 

Það er mikilvægt að konur komist upp í gegnum glerþökin og inn í gegnum hliðin sem skella gjarnan í lás þegar konur nálgast. Það er mikilvægt að konur komist í valdastöður því þær ryðja brautina fyrir aðrar konur og fylla ungar stúlkur af sjálfstrausti og trú á það að þeim séu allir vegir færir. 

 

Og svo hafa þær svo mikið til málanna að leggja að þær eru algjörlega ómissandi þar sem ráðum er ráðið.

 
mbl.is „Ségolène hefur það“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókeypis í strætó

Hrikalegar fréttir og ljóst að eitthvað þarf að gera til að draga úr menguninni. Ókeypis í strætó fyrir alla væri ágætis byrjun.

Stoltenberg er með miklar áætlanir í gangi til að draga úr mengun í Noregi, eins og ég minnist á hér fyrir neðan (Góðir grannar), og við þurfum heldur betur að skoða okkar gang.

 


mbl.is Útstreymi gróðurhúsalofttegunda hefur aukist um 30% í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Please don´t hate me"

Ég ætla að biðja ykkur um að hafa þolinmæði með mér þótt útlit síðunnar verði upp og ofan næstu daga. Ég er að reyna að finna eitthvað ásættanlegt, en þessar stöðluðu myndir er frekar svona klisjukenndar. 

Þetta stendur vonandi til bóta.

Og já: Lay Low er í algjöru uppáhaldi hjá mér...


Góðir grannar

Það gladdi mitt femíníska hjarta að frétta það að nú verða konur í fyrsta sinn í sögunni
í meirihluta ráðherraliðsins í Finnlandi, 12 konur af 20 ráðherrum. Finnar eru því ekki aðeins framsæknir í mennta- og efnahagsmálum heldur einnig í jafnréttismálum. Tarja Halonen forseti Finnlands skipar stjórnina formlega í dag. Við þurfum meira af þessu.

Góðu fréttirnar frá Noregi eru þær að Norðmenn með jafnaðarmanninn Jens Stoltenberg forsætisráðherra í fararbroddi, ætla að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Stoltenberg lýsti þessu yfir á landsfundi Verkamannaflokks Noregs, þar sem hann sagði að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda sé mikilvægasta verkefni samtímans. Markmið norsku jafnaðarmannanna er það að Noregur verði "grænt land" árið 2050. Áfangamarkmið eru að árið 2012 muni Noregur ná því að standa við Kyotobókunina og 10% betur og 2020 verði Norðmenn búnir að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 30%. Og Norðmenn ætla að gera enn betur því Stoltenberg lofaði flokksfélögum sínum því að fyrir árið 2050 muni Noregur kaupa losunarkvóta fyrir gróðurhúsalofttegundir sem nemur þeirri losun sem áfram verði í landinu. Þannig verði Norðmenn skuldlausir við umheiminn miðað við Kyotobókunina og það sem meira er: þeir muni ekki nota þann kvóta sem þeim er úthlutað samkvæmt pappírunum.

Jafnaðarmenn fögnuðu þessum yfirlýsingum Stoltenbergs með miklu lófataki á landsfundi sínum. 

Það gera jafnaðarmenn á Íslandi líka, enda umhverfismálin mikilvæg fyrir okkur öll.
 


Þrjár systur

Ég var fjarri góðu gamni á landsfundi Samfylkingarinnar, veik heima, en með hjálp nútíma tækni gat ég þó fylgst með helstu atburðunum. Guði sé lof fyrir tæknina. Mér þótti ræða formannsins okkar afspyrnu góð og heimsókn fulltrúa systurflokkanna í Danmörku og Svíþjóð sérstaklega ánægjuleg. Í framhaldi af viðtölum við þær Helle og Monu, og ræðum þeirra, varð mér hugsað til þess hve mikilvægt það er að jafnaðarmenn komist þangað sem ráðum er ráðið. Það leikur enginn vafi á því að sú velferð sem við búum við í okkar samfélagi er fyrst og fremst jafnaðarmönnum að þakka. Á árum áður áttu Alþýðuflokkurinn og verkalýðshreyfingin stærstan hlut í baráttunni fyrir aukinni velferð.

Einhvern veginn höfum við þó aldrei náð eins langt með velferðina og jöfnuðinn og Danir og Svíar og þar sem ég horfði og hlustaði á þessar forystukonur jafnaðarmanna varð mér hugsað til þess að ástæðan fyrir því er náttúrlega sú að jafnaðarmenn voru lengst af ráðandi í Svíþjóð og Danmörku en við hér á Íslandi höfum búið við þann ófögnuð að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi í stjórnmálum hér á landi lengur en elstu menn muna. Og þar sem þeirra hugsjón snýst fyrst og fremst um það að skara eld að köku efnamanna hefur baráttan fyrir aukinni velferð hér á landi verið erfiðari og náð skemur.

Það er því alveg ljóst að til þess að hér verði hægt að bæta lífskjör almennings á næstu árum verðum við að koma íhaldinu frá og Samfylkingunni að.

Það sem varð þó til að kæta mig enn meir var það að eftir landsfundinn hringdi fjöldi manna, karla og kvenna, í mig og lýsti yfir ánægju sinni með fundinn, formanninn og þau málefni sem Samfylkingin hefur sett á oddinn.

Meðal þeirra sem hringdu voru týndir sauðir sem höfðu villst til vinstri-grænna á síðustu mánuðum, ungir sem aldnir og stöku sjálfstæðismenn. Þeir voru sammála um það að til þess að auka velferð, jafnrétti og frelsi í samfélagi okkar væri skynsamlegast að kjósa Samfylkinguna í vor.





« Fyrri síða

Höfundur

Sonja B. Jónsdóttir
Sonja B. Jónsdóttir
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband