Leita í fréttum mbl.is

Persónuleg eða pólitísk?

 Það er ekki lítið mál að blogga - ég er búin að komast að því! Átti frí í vinnunni á föstudaginn var og ákvað, full bjartsýni, að byrja að blogga. Skrifaði þá nokkrar færslur eins og sumir hafa komist að. En svo fór nú með þetta eins og dagbókarskrifin í gamla daga, alltaf eitthvað svo mikilvægt að gera í lífinu að skýrslugerðin varð að bíða. Svo áttu dagbókarskrifin það til að verða svo tilfinningaþrungin og opinská að ég fann mig knúna til að rífa bókina í tætlur og kveikja í henni á nokkurra vikna fresti. Og það er einmitt ein af spurningunum sem bloggarar hljóta að spyrja sig: Hversu persónulegt á bloggið að vera? Ég sé að sumir skrifa bara um pólitík og fréttir, aðrir blanda skondnum smásögum úr hversdagslífinu í bloggið sitt á meðan enn aðrir eru eins persónulegir og þeim sýnist.
 
Ákveði ég að verða persónuleg get ég sagt frá því að verkefni og atburðir helgarinnar voru allt frá því að vera erfið og sár yfir í að vera svo ánægjuleg að ég hef ekki skemmt mér betur í langan tíma. Hápunktur gleðinnar var fimmtugsafmæli rauðhærðu söngkonunnar sem var allra skemmtilegasta veisla sem ég hef verið í lengi og örugglega fimmtugsafmæli ársins! Það voru sko engin 50-centa skemmtiatriði þar, enda eintómir snillingar saman komnir á heimili söngkonunnar góðu.
 
Þegar ég var að fara yfir það í huganum hvernig helgin mín hefði verið flaug um huga mér ljóðlínan "Dýpsta sæla og sorgin þunga" og það varð til þess að ég fletti upp á þessu dásamlega ljóði og get ekki stillt mig um að birta það hér í heild:
 
Dýpsta sæla og sorgin þunga
svífa hljóðlaust yfir storð.
Þeirra máli ei talar tunga.
Tárin eru beggja orð.
 
Þetta dásamlega ljóð er eftir eina af okkar frábæru skáldkonum, Ólöfu Sigurðardóttur frá Hlöðum (f.1857 - d.1933).
 
 
Ákveði ég hins vegar að vera pólitísk standa kosningarnar í Frakklandi upp úr - og nú vona ég bara að Segolene drífi fram úr hinum frambjóðandanum - hvað´ann-nú-heitir-aftur- og verði forseti Frakklands 6. maí, Ingibjörg Sólrún forsætisráðherra Íslands viku síðar og Hillary svo forseti Bandaríkjanna.
 
Í gærkvöld urðu svo þau frábæru tíðindi að stofnað var Félag ungra jafnaðarmanna á Seltjarnarnesi.  Ég fór að sjálfsögðu á stofnfundinn og fylltist bjartsýni á framtíðina þegar ég sá þetta unga og áhugasama fólk sem ætlar að halda á lofti merkjum jafnaðarstefnunnar og berjast fyrir aukinni velferð og jöfnuði í samfélagi okkar. 
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sonja B. Jónsdóttir
Sonja B. Jónsdóttir
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband