5.5.2007 | 11:03
Eru jafnréttismálin gleymd og grafin?
Ég hef tekið eftir því í blöðum og bloggum að fólk kvartar yfir því að ekki sé talað um jafnréttismál í kosningabaráttunni og það er líkast til rétt að lítið hafi farið fyrir jafnréttis- og kvenfrelsismálunum á allra síðustu dögum.
Ég held að þegar ójöfnuður hefur aukist jafn mikið og raun ber vitni í okkar samfélagi verði hann svo hrópandi að athyglin hlýtur að beinast að honum. Við viljum ekki þá miklu stéttaskiptingu sem orðin er í samfélaginu og viljum leita leiða til að auka velferðina. Velferðarmálin hljóta því að fá mikið pláss í kosningabaráttunni. Þegar við erum farin að þurfa að horfa upp á að börn eru með skemmdar tennur vegna fátæktar, gamalt fólk bíður hundruðum saman eftir hjúkrunarrýmum, þarf að dvelja á dvalarheimilum fjarri sinni heimabyggð og sínum ættingjum, geðveik börn fá ekki þá meðferð sem þau þurfa, unglingar hafa ekki ráð á því að sækja nám í framhaldsskóla, o.s.frv., o.s.frv., þá er okkur einfaldlega nóg boðið.
Við þurfum að auka velferð og draga úr og helst útrýma stéttaskiptingunni sem hefur aukist svo brjálæðislega á undanförnum árum að djúp og breið gjá skilur að hina efnuðu og þá efnaminni.
Það er mikið talað um skattamálin vegna þess að skattar hafa hækkað á láglaunafólki og lækkað á hálaunafólki og fjármagnseigendum. Það þarf að hækka skattleysismörkin vegna þess að það kemur hinum tekjulægri til góða.
Jafnréttismálin eru þó ekki gleymd. Ingibjörg Sólrún talaðu um það í ræðu sinni á Landsfundi Samfylkingarinnar að útrýma þurfi óútskýrðum launamun kynjanna og hún talaði líka um það að hækka þurfi laun kvenna í hefðbundnum kvennastéttum hjá ríkinu. Þegar hún var borgarstjóri minnkaði launamunur kynjanna hjá borginni og fleiri konur voru ráðnar í stjórnunarstöður. Hún talaði líka um að afnema þurfi launaleynd en allt bendir til þess að launaleynd sé einn af þeim þáttum sem halda launum kvenna niðri.
Ingibjörg Sólrún er femínisti og hún hefur barist fyrir bættum hag kvenna síðustu 30 árin eða svo. Hún mun ekki hætta því, hún mun halda því áfram.
Það er því mikilvægt fyrir konur að Ingibjörg Sólrún verði leiðandi í næstu ríkisstjórn og það er ekki nema vika í það að við getum skrifað nýjan kafla í Íslandssöguna með því að tryggja það að hún verði næsti forsætisráðherra Íslands, fyrst kvenna í því embætti.
Tenglar
Tenglar
Hér er tengill á heimasíðuna mína www.123.is/sonjab
- Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn Þjóðbókasafn Íslendinga og bókasafn Háskóla Íslands
- Heimasíðan mín
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.